Erlent

Endurnýjun í forystu Fatah

Marwan Barghouti
Marwan Barghouti

Mikil endurnýjun hefur orðið í miðstjórn palestínsku Fatah-samtakanna eftir nýafstaðnar kosningar, þær fyrstu innan samtakanna síðan 1989.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínustjórnar, var einróma endurkjörinn formaður samtakanna, en hann hefur verið við völd frá því að Jasser Arafat, stofnandi Fatah, lést árið 2004. Alls sitja nítján manns í miðstjórn samtakanna, en fimmtán nýir stjórnarmenn voru kjörnir og héldu því aðeins þrír núverandi meðlimir flokksins stöðu sinni.

Miklar vonir eru bundnar við nýju leiðtogana, en þar á meðal eru Jibril Rajoub, 56 ára, sem vann náið með Arafat á árum áður, og hernaðarleiðtoginn Marwan Barghouti, sem er fimmtugur. Hann afplánar nú lífstíðarfangelsisdóm í Ísrael en er talinn líklegur framtíðarleiðtogi flokksins.

Barghouti átti áður fyrr í reglulegum samskiptum við ísraelska friðarsinna og lýsti yfir vilja til að fallast á málamiðlanir. Eftir að Palestínumenn hófu nýja uppreisn árið 2000 varð tónn hans gagnvart Ísrael þó herskárri.

Undanfarið hefur hann hafnað því að friðarviðræður við Ísrael hefjist á ný nema Ísraelar hætti fyrst öllum framkvæmdum á landtökusvæðum, heiti því að frelsa alla palestínska fanga og fallist á brotthvarf frá herteknu svæðunum.

Flest atkvæði fékk þó gamall félagi Arafats, Mohammed Ghneim, sem býr í útlegð í Túnis.

„Þessar kosningar skapa grunninn að nýrri framtíð samtakanna, nýjum tíma lýðræðis,“ sagði Mohammed Dahlan, einn hinna nýkjörnu leiðtoga.

Fatah-samtökin hafa undanfarna áratugi verið stærstu stjórnmálasamtök Palestínumanna. Þau hafa þó misst töluvert fylgi undanfarin ár og hefur spilling veikt stöðu flokksins, en frá því að Hamas, samtök herskárra múslima, komust til valda á Gasasvæðinu árið 2007 hafa völd Fatah verið bundin við Vesturbakkann.

Talið er að Bandaríkjastjórn muni innan fárra vikna kynna nýjar tillögur sínar um friðarsamninga. Ný stjórn Fatah vekur nú von margra um að þær tillögur fái frekari hljómgrunn meðal liðsmanna samtakanna.

Erfiðara gæti hins vegar reynst að sannfæra ráðamenn í Ísrael, sem haldnir eru djúpstæðri tortryggni gagnvart Palestínumönnum. Herská afstaða Hamas-samtakanna á Gasa þykir einnig ólíkleg til að breytast meðan Ísraelar gefa ekkert eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×