Innlent

Verðmætt þýfi fannst við húsleit í Reykjavík

Skartgripir Í íbúðinni voru heilu skartgripaskrínin, hringar, armbönd, perlufestar, úr og men. Að auki á annan tug fartölva. Verðmætið er talið nema milljónum króna.
Skartgripir Í íbúðinni voru heilu skartgripaskrínin, hringar, armbönd, perlufestar, úr og men. Að auki á annan tug fartölva. Verðmætið er talið nema milljónum króna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann gríðarlega mikið magn þýfis í gær. Karlmaður á þrítugsaldri, sem er af erlendu bergi brotinn, var handtekinn og verður að líkindum farið fram á gæsluvarðhald yfir honum í framhaldinu.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins virðist svo sem stærstur hluti þýfisins sé úr innbrotum á heimili. Þarna voru heilu skartgripaskrínin, hringar, armbönd, perlufestar, úr og men.

Einnig á annan tug fartölva, myndavélar og annað sem auðvelt er að koma í verð. Verðmæti munanna er talið hlaupa á milljónum króna.

Það var lögreglan á lögreglustöðinni Dalvegi í Kópavogi sem fann þetta mikla magn af þýfi í íbúð í austurborginni. Það var árangur rannsóknar á innbroti inn á heimili í Kópavogi sem átti sér stað síðastliðinn föstudag. Þar var miklum verðmætum stolið.

Vísbendingar urðu til þess að ákveðið var að gera húsleit í íbúðinni í gær, þar sem þýfi lá í bunkum, meðal annars munir úr föstudagsinnbrotinu. Maðurinn, sem handtekinn var og sætir nú yfirheyrslum, hefur dvalið í íbúðinni um skeið.

Eins og áður sagði virðist sem flestum mununum hafi verið stolið í innbrotum í íbúðarhúsnæði. Eitthvað mun þó hafa verið af þýfi sem augljóslega hafði verið stolið úr verslunum. Má þar nefna ónotaðan kvenfatnað, þar sem í hrúgunum voru margar flíkur af sömu tegund.

Sex manns sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna þjófnaðarmála. Um er að ræða tvö meint þjófagengi. Annað þeirra er talið vera viðriðið tuttugu og sex innbrot en lögreglan vinnur að rannsókn á afbrotaferli hins gengisins. Mennirnir sex eru allir af pólskum uppruna.

Þýfi Svo virðist sem sá eða þeir sem voru þarna að verki hafi stolið öllu sem hönd á festi, þótt dýru hlutirnir væru áberandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×