Fótbolti

Frakkar segja FIFA vera að refsa þeim fyrir höndina hans Henry

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Hidalgo gerði Frakka að Evrópumeisturunum 1984.
Michel Hidalgo gerði Frakka að Evrópumeisturunum 1984. Mynd/AFP

Frakkar eru allt annað en sáttir með það að vera ekki í fyrsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í úrslitakeppni HM í dag og ekki að ástæðulausu. Frakkar er meðal sjö bestu þjóða heims á nýjasta styrkleikalista FIFA og hafa komist í úrslitaleikinn á tveimur af síðustu þremur HM. Þeir halda því fram að FIFA sé að refsa þeim fyrir höndina hans Henry.

Englendingar eru í fyrsta styrkleikaflokki í stað Frakka sem þýðir að franska landsliðið á það á hættu að lenda með Brasilíu, Spáni, Hollandi, Ítalíu, Þýskalandi eða Argentínu í riðli.

„Ég skil ekki af hverju Frakkar eru ekki í fyrsta styrkleikaflokki. Þarna liggja móralskar ástæður að baki því staðreyndirnar tala sínu máli. Frakkar urðu heimsmeistarar 1998 og komust í úrslitaleikinn 2006.

Af hverju er Argentína í efsta flokki? og hvað hefur England afrekað til þess annað en að vera með deild fulla af útlendingum?," sagði Michel Hidalgo, fyrrum þjálfari franska landsliðsins og sá sem gerði Frakka að Evrópumeisturunum 1984.

„Þetta er hreint og beint óréttlæti. Það er ekki mitt að standa og benda en það er eins og það sé verið að refsa heilli þjóð fyrir eitthvað sem einn leikmaður gerði," sagði Michel Hidalgo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×