Innlent

Peningahámark í prófkjöri Sjálfstæðismanna

Valhöll.
Valhöll.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík efna til prófkjörs vegna borgarstjórnarkosninga næsta vor 23. janúar næstkomandi. Nokkur nýbreytni verður í áherslum í framkvæmd prófkjörsins en meðal annars verður lagt upp úr því að kostnaður frambjóðanda vegna kynningar fari ekki yfir 1.5 milljón króna samkvæmt tilkynningu.

Stjórn Varðar - Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ákvað á fundi sínum í dag að leggja til við fulltrúaráðsfund, sem haldinn verður mánudaginn 2. nóvember kl. 17.30 í Valhöll, að efna til prófkjörs laugardaginn 23. janúar næstkomandi til að velja frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna 2010.

Stjórn Fulltrúaráðsins samþykkti að leggja til við prófkjörsframbjóðendur að þeir stilli kostnaði við þátttöku sína í hóf og bjóða þeim að nýta þá sameiginlegu kynningu sem Fulltrúaráðið mun standa fyrir. Þá var ákveðið að prófkjörið verði haldið á einum degi en ekki tveimur eins og venja hefur verið undanfarin skipti.

Sameiginleg kynning frambjóðenda felur í sér að þeir hafa aðgang að sérstökum prófkjörsvef þar sem þeir geta kynnt sig og sínar áherslur. Þá munu þeir geta haft vinnuaðstöðu í Valhöll og boðið til sín áhugasömum kjósendum til skrafs og ráðagerða.

Viðtalstímar við frambjóðendur verða ákveðna daga, bæði í Valhöll og í félagsheimilum sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Sérstakir framboðsfundir verða haldnir til að kynna frambjóðendur, bæði í Valhöll og úti í hverfum. Þetta og ýmislegt fleira sem boðið verður upp á ætti að stuðla að því að frambjóð­endur stilli kynningu á eigin vegum og kostnaður fari ekki yfir 1.5 milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×