Enski boltinn

City dró sig út úr kaupunum á Kaka

AFP

Nú er komið í ljós að það var Manchester City sem dró sig út úr viðræðunum vegna fyrirhugaðra kaupa félagsins á Brasilíumanninum Kaka.

Garry Cook, framkvæmdastjóri City, segir að félagið hafi dregið sig út úr viðræðum vegna þess að Milan hafi ekki farið að vinnureglum.

"Ég er með pappírana undir höndum þar sem Adriano Galliani (framkvæmdasstjóri Milan) og ég sjálfur skrifum undir yfirlýsingu þar sem fram kemur að Milan strengi þess heit að selja Kaka til Manchester City, að því gefnu að leikmaðurinn gangi að kaupum og kjörum. Það tók okkur tólf vikur að komast á þennan stað, en hvað gerðist svo?" sagði Cook.

Áður en City fékk tækifæri til að tala við leikmanninn, kom Silvio Berlusconi fram í sjónvarpsþætti og sagði að leikmanninum hefði snúist hugur og hefði neitað stóru tilboði frá enska félaginu.

"Það var ekki ákvörðun Kaka eða föður hans að hætta við - það var okkar ákvörðun, því við sáum að Milan fór ekki eftir vinnureglum. Þegar öllu er á botninn hvolft, getur Kaka ekki neitað samningstilboði sem hann fékk aldrei í hendur. Við spurðum fulltrúa leikmannsins og fulltrúa Milan spurninga, en fengum engin svör. Þess vegna drógum við okkur út úr viðræðum," sagði Cook.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×