Erlent

Bandaríkjaforseti á hundavaði

Óli Tynes skrifar
Í Þýskalandi var þetta valin mynd vikunnar.
Í Þýskalandi var þetta valin mynd vikunnar. MYND/AP

Það munaði minnstu að forseti Bandaríkjanna félli hundflatur þegar hann fór í fyrsta skipti út að ganga með fjölskylduhundinn Bó.

Bó vildi fara sínar eigin leiðir og lét sig engu skipta að það var valdamesti maður heims sem var að reyna að hanga í honum.

Dæturnar Malia og Sasha höfðu gaman af. Barack Obama er með ofnæmi fyrir hundum. Það hefur því aldrei verið hundur á heimilinu.

Til þess að losna við nauðið í stelpunum lofaði Obama því að þær skyldu fá hund ef hann ynni sigur í forsetakosningunum.

Það fór eins og það fór og því var byrjað að leita að einhverjum rakka sem vekti ekki ofnæmi hjá forsetanum.

Niðustaðan var sú að hann gæti þolað eitthvað fyrirbæri sem heitir Portúgalskur vatnahundur.

Bó er af þeim göfuga stofni. Rétt er að geta þess að nafngift hundsins er í góðri sátt við Bó okkar Halldórsson.

Vonandi gerir hundkvikindið sér grein fyrir hver heiður honum er sýndur með því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×