Fótbolti

Milan Stefán: Það eru allir í Bosníu að bíða eftir þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milan Stefán Jankovic ásamt syni sínum Marko Valdimari og Guðmundi Agli Bergsteinssyni.
Milan Stefán Jankovic ásamt syni sínum Marko Valdimari og Guðmundi Agli Bergsteinssyni. Mynd/Heimasíða Grindavíkur
Bosníumenn eiga möguleika á að komast á HM í knattspyrnu í fyrsta sinn þegar þeir taka móti Portúgal í Zenica í Bosníu í seinni leik liðanna í umspili um sæti á HM í Suður-Afríku næsta sumar. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 í kvöld og hefst klukkan 19.40.

Portúgal vann 1-0 sigur í fyrri leiknum og nægir því jafntefli í kvöld. Milan Stefán Jankovic, aðstoðarþjálfari Grindvíkinga og yfirþjálfari knattspyrnuakademíu félagsins er frá Bosníu og ætlar að fylgjast með hugsanlegri sögulegri stund í kvöld.

„Ég var að lesa fréttir frá Bosníu um þennan leik," segir Milan Stefán sem er frá Bihac í Bosníu en hefur verið á Íslandi frá árinu 1992. Milan Stefán segir að Portúgalar höfðu gert Bosníumönnum lífið leitt með vegabréfsskoðun og öðru viðlíka í flugstöðunni þegar þeir komu til Portúgal í fyrri leikinn og að Bosníumenn hafi endurgoldið "greiðann" við komu Portúgalana til Bosníu.

„Það voru mikil læti í flugstöðunum, fyrst í Portúgal og svo aftur í Bosníu. Lögreglan þurfti að mæta á staðinn," hefur Milan Stefán eftir fjölmiðlum í gamla heimalandi sínu. Það verður líklega ekki tekist minna á í leiknum sjálfum.

„Þetta er mikilvægasti leikur í Bosníu frá upphafi og þeir gera allt til þess að vinna þennan leik. Það vantar samt þrjá leikmenn í kvöld," segir Milan Stefán en þeir fengu allir spjald í fyrri leiknum og taka út leikbann í kvöld.

„Þetta eru tveir miðjumenn og kantmaður sem eru allir góðir leikmenn og voru með fast sæti í byrjunarliðinu," segir Milan og bætir við: „Bosníumenn vonast til að vinna leikinn 1-0 og taka þá síðan í vítakeppni," segir Milan sem vonast að sjálfsögðu eftir heimasigri.

Áhuginn er það mikill fyrir þessum leik að það komast að miklu færri en vilja og hafa Bosníumenn gripið til þess ráðs að setja upp sjónvarpsskjái fyrir utan völlinn.

„Það eru allir í Bosníu að bíða eftir þessum leik og þetta er mjög stór dagur. Þeir eru að tala um það í Bosníu að ef liðið kæmist á HM þá yrði þjóðhátíð í marga daga. Það er mikil atvinnuleysi í Bosníu og fólkið er mjög óánægt. Ef Bosnía vinnur í kvöld þá myndi allt breytast og þetta myndi bjarga Bosníu," segir Milan Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×