Innlent

Ráðuneytið bíður enn eftir gögnum frá Menntaskólanum

Menntamálaráðuneytið bíður enn gagna frá Menntaskólanum ehf., sem hyggst reka nýjan grunnskóla í Reykjavík, sem varða væntanlegt húsnæði skólans við Barónsstíg. Ráðuneytinu hafa borist öll önnur gögn sem eiga að fylgja umsókn um nýjan skóla, samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu.

Borgarstjórn samþykkti um miðjan mánuðinn fyrir sitt leyti að nýr einkarekinn grunnskóli gæti tekið til starfa. Nýi skólinn á að starfa í hluta húsnæðis gömlu heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg. Aðstandendur grunnskólans eru Edda Huld Sigurðardóttir fyrrverandi skólastjóri Ísaksskóla, Þorvaldur Þorsteinsson rithöfundur, Jenný Guðrún Jónsdóttir kennari og Ólafur Stefánsson handboltamaður.

Gert er ráð fyrir því að formleg skoðun á erindi skólans um starfsleyfi, hefjist um leið og gögn um húsnæðið berast ráðuneytinu. Ranghermt var í fréttum Stöðvar tvö á dögunum að ráðuneytinu hefði ekki borist skólanámsskrá Menntaskólans. Hún barst ráðuneytinu með upphaflegri umsókn. Beðist er velvirðingar á mistökunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×