Innlent

Össur gagnrýndi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gagnrýndi það harðlega í ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær, að óskyldar tvíhliða deilur Íslendinga við Hollendinga og Breta tefðu framgang efnahagsáætlunar Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Utanríkisráðherra ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Þar minnti hann á að nú væri ár liðið frá því Íslendingar urðu fyrsta fórnarlamb alþjóðlegu fjármálakreppunnar, sem á svipstundu hefði nánast þurkað út bankakerfi landsins og ýtt Íslandi í mestu efnahagskreppu í manna minnum.

Íslendingar væru fyrsta fórnarlamb græðgi fjármálaheimsins jafnt heima fyrir sem og á alþjóða vísu, sem hafi misnotað regluverk, stjórnast af vafasömum vinnuaðferðum, falið fjármuni í skattaskjólum og byggt á ábyrgðarlausum bónusgreiðslum sem hafi stuðlað að meiri áhættusækni en áður þekktist.

Össur sagði þá sem bæru ábyrgð á efnahagshruninu hafi skilið eftir sig sviðna jörð, ráðviltan almenning sem væri fullur sorgar og reiði og ætti yfir höfði sér gjaldþrot og óttaðist að missa heimili sín og atvinnu. Hann sagði Íslendinga þó vera að rétta úr kútnum, ekki hvað síst fyrir stuðning vinaþjóða á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. En hann þakkaði Pólverjum sérstaklega fyrir að hafa boðið Íslendingum lán án skilyrða, sem væri vináttuvottur sem Íslendingar myndu aldrei gleyma.

Utanríkisráðherra sagði áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að mestu vera á áætlun en hann yrði þó að koma á framfæri mikilli óánægju Íslendinga með þá staðreynd, að óskildar tvíhliða deilur kæmu í veg fyrir að áætluninni væri að fullu fylgt eftir. Þarna fór ekki á milli mála að utanríkisráðherra var að vísa til deilna Íslendinga við Hollendinga og Breta vegna Icesave.

Össur sagði nauðsynlegt að allar þjóðir heims tækju höndum saman við endurreisn efnahagslífsins og ynnu saman gegn þeirri spillingu sem leitt hefði kreppuna yfir heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×