Enski boltinn

Zamora sá um United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bobby Zamora og Clint Dempsey fagna marki þess fyrrnefnda í dag.
Bobby Zamora og Clint Dempsey fagna marki þess fyrrnefnda í dag. Nordic Photos / AFP
Bobby Zamora átti þátt í tveimur mörkum og skoraði eitt þegar Fulham vann óvæntan en góðan sigur á Manchester United, 3-0, í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Alls hófust fjórir leikir í deildinni klukkan 15.00 í dag og má sjá úrslit og markaskorara leikjanna hér að neðan.

United voru enn án fjölmargra varnarmanna í leiknum í dag og því voru þeir Darren Fletcher og Michael Carrick í vörninni sem og Ritchie de Laet, 21 árs gamall Belgi.

Fulham fékk betri færi strax í upphafi leiks og þurfti Tomasz Kuszczak að verja frá Zoltan Gera sem komst í fínt skotfæri eftir góðan undirbúning Bobby Zamora.

Aðeins fáeinum mínútum skoraði svo Fulham. Paul Scholes fékk boltann á miðjunni en leyfði Danny Murphy að hirða boltann af sér. Murphy lét svo vaða af rétt utan vítateigs og hafnaði boltinn í netinu, þó svo að Kuszczak hefði sjálfsagt átt að gera betur í markinu.

Fulham átti fínan fyrri hálfleik og byrjaði þann síðari af miklum krafti. Strax á fyrstu mínútu komst Fulham í sókn. Damien Duff gaf boltann fyrir markið, Clint Dempsey skallaði hann fyrir fætur Zamora sem skoraði með föstu skoti af stuttu færi.

United náði aðeins að bíta frá sér eftir þetta en tókst þó ekki að skora. Þess í stað náði Fulham að bæta við þriðja markinu.

Brede Hangeland átti langa sendingu að vítateig United. Zamora náði að leggja boltann afar snyrtilega fyrir Damien Duff sem sem skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Zamora komst svo nálægt því að skora fjórða markið en þá náði Kuszczak að verja. En niðurstöðunni yrði ekki breytt - Fulham vann góðan sigur á United sem mátti sætta sig við fimmta tap í deildinni í vetur.

Þetta þýðir að ef Chelsea vinnur West Ham á morgun ná þeir bláklæddu sex stiga forystu á toppi deildarinnar.

Aston Villa og Tottenham unnu bæði afar góða sigra í dag og gefa ekkert eftir í toppbaráttunni. Bæði lið eru í 33 stig í 3.-4. sæti deildarinnar.

Þá slapp Manchester City við enn eitt jafnteflið eftir 4-3 dramatískan sigur á Sunderland. Það er þó spurning hvort sigurinn dugi til að bjarga starfi Mark Hughes hjá City.

Úrslit og markaskorarar dagsins:

Fulham - Manchester United 3-0

1-0 Danny Murphy (22.)

2-0 Bobby Zamora (46.)

3-0 Damien Duff (75.)

Blackburn - Tottenham 0-2

0-1 Peter Crouch (45.)

0-2 Peter Crouch (83.)

Aston Villa - Stoke 1-0

1-0 John Carew (61.)

Manchester City - Sunderland 4-3

1-0 Roque Santa Cruz (4.)

2-0 Carlos Tevez, víti (12.)

2-1 John Mensah (16.)

2-2 Jordan Henderson (24.)

3-2 Craig Bellamy (35.)

3-3 Kenwyne Jones (62.)

4-3 Roque Santa Cruz (69.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×