Innlent

Viðkvæm málsgögn ljósrituð úti í bæ

Ríkissaksóknari þarf að senda öll málsskjöl í áfrýjuðum málum til Hæstaréttar á ljósritunarstofu úti í bæ, vegna aðbúnaðar hjá embætti hans og skorts á starfsfólki.

Málsskjölin hafa að geyma mjög viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem framburði barna í kynferðisbrotum, sjukraskýrslur, svo og ljósmyndir af brotaþolum og myndir tengdar kynferðisbrotamálum.

Nýlega kom í ljós að að einstaklingur sem vann á umræddri ljósritunarstofu, sem hefur með höndum fjölföldun dómsgerða í áfrýjuðum málum, hefði hlotið fangelsisdóm.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari staðfesti við Fréttablaðið að málum væri háttað með þessum hætti. Hann hefur ritað Hæstarétti og dómstólaráði bréf þar sem þessar upplýsingar koma fram.

Ríkissaksóknari bendir á að mikill dráttur hafi orðið á endurritun hjóðupptöku úr dómssölum hjá Héraðsdómi Reykjavíkur enda sé þar mjög mikið álag.

Valtýr segir það sína skoðun að ljósritun málsskjala eigi að fara fram hjá embætti hans. Hins vegar verði sú breyting ekki gerð fyrr en embættinu verði tryggt fjármagn til verksins, til dæmis með flutningi fjármagns frá dómstólunum.

- jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×