Erlent

Óvissa um framhaldið hætti Abbas

Fjöldi Palestínumanna kom saman í Ramallah í gær til að lýsa stuðningi við Mahmoud Abbas. fréttablaðið/AP
Fjöldi Palestínumanna kom saman í Ramallah í gær til að lýsa stuðningi við Mahmoud Abbas. fréttablaðið/AP

 Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, segir það ógna friðnum geri Mahmoud Abbas alvöru úr yfirlýsingum sínum um að bjóða sig ekki fram til næsta kjörtímabils.

Ahmet Davutoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sem var í heimsókn hjá starfsbróður sínum í Frakklandi, sagðist vona að ákvörðun forseta Palestínustjórnar væri ekki endanleg.

Bjóði Abbas sig ekki fram í janúar gæti það aukið sigurlíkur Hamas-samtakanna, andstæðinga Fatah-hreyfingarinnar, sem Abbas hefur stjórnað síðan Jasser Arafat féll frá árið 2004.

Fatah-hreyfingin mun líklega bjóða fram Nasser Al-Kidwa, fimmtugan frænda Arafats, sem hefur verið fulltrúi Palestínustjórnar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Einna líklegast þykir þó að Marwan Barghouti, Fatah-maður sem hefur setið í fangelsi í Ísrael árum saman, beri sigur úr býtum. Barghouti bauð sig fram árið 2004, þrátt fyrir að sitja í fangelsi, en dró framboð sitt til baka vegna þrýstings frá áhrifamönnum í Fatah.

Abbas sagðist ekki hafa áhuga á að gegna embættinu lengur vegna pattstöðu í friðarmálum, sem hann sakar bæði Ísraela og Bandaríkin um að bera ábyrgð á. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×