Enski boltinn

Það botnar enginn í Benitez

NordicPhotos/GettyImages

Jermaine Pennant virðist vera feginn að vera laus frá knattspyrnustjóranum Rafa Benitez hjá Liverpool ef marka má orð hans í viðtali við Sun í dag.

Pennant gekk í raðir Portsmouth sem lánsmaður á dögunum eftir að hafa verið settur út í kuldann af spænska knattspyrnustjóranum.

"Ég hlakka til að heyra Tony Adams tala ensku," sagði kantmaðurinn. "Á síðasta tímabili spilaði ég 34 leiki og árið þar á undan úrslitaleik í Meistaradeildinni, en nú er Rafa búinn að skipta um aðferðafræði. Ég veit ekki hvort það er enska hugarfarið sem honum er í nöp við en það er ekki mikið af enskum leikmönnum hjá Liverpool. Ég minntist á þetta sama þegar ég var hjá Arsenal, svo ég hef ekki haft sérlega gott samstarf við erlenda þjálfara," sagði Pennant.

"Það er skrítið að fara frá því að spila í hverri viku yfir í það að æfa einn á laugardögum. En svona er Rafa og ég efast um að helmingur af leikmönnum Liverpool botni í því hvað hann er að gera. Þeir skildu heldur ekki af hverju ég fékk ekki að spila. Það sama má segja um Peter Crouch þegar hann var hérna, en hann hefur sagt mér að Tony (Adams) muni leyfa mér að spila meira hérna," sagði Pennant.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×