Innlent

Krefjast aðgerða af hálfu ESB gegn Íslandi og Noregi

Fiskveiðiráðið sem heldur utan um úthafsstofna við strendur Evrópu (PRAC) hefur krafist þess að framkvæmdastjórn ESB grípi strax til aðgerða gegn Íslandi og Noregi vegna einhliða ákvarðana þessara þjóða um markrílkvóta sína.

Í frétt um málið á vefsíðunni fishnewseu.com segir að einhliða ákvarðanir Íslendinga og Norðmanna um kvóta á markríl annarsvegar og hrossamakríl hinsvegar setji báða þessa stofna í hættu.

Ian MacSween formaður PRAC segir að um óábyrgar ákvarðanir sé að ræða af hálfu beggja þjóðanna. PRAC hafi unnið árum saman að því að byggja upp langtímaveiðiþol í báðum þessum stofnum og sökum þeirrar vinnu sé ástand stofnanna vel viðunandi.

„Það er óásættanlegt að Íslendingar og Norðmenn taki einhliða ákvarðanir sínar án nokkurs tillits til þeirra áhrifa sem þær kunna að hafa," segir MacSween.

Sökum þessa hefur PRAC sent inn harðort bréf til framkvæmdastjórnar ESB þar sem krafist er tafarlausra aðgerða gegn Íslandi og Noregi sökum ákvarðana þjóðanna um makrílveiðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×