Fótbolti

Gerrard: Kominn tími á að aðrar þjóðir fari að óttast Englendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard fagnar marki fyrir enska landsliðið.
Steven Gerrard fagnar marki fyrir enska landsliðið. Mynd/AFP

Steven Gerrard og félagar í enska landsliðinu höfðu heppnina með sér þegar þeir voru settir í efsta styrkleikaflokk fyrir HM-dráttinn sem fer fram í Höfðaborg í Suður-Afríku á morgun.

„Það er bara okkur í hag að vera í efsta styrkleikaflokki. Ég tel samt að við þurfum ekki að óttast neina mótherja á HM. Við berum virðingu fyrir öllum andstæðingum en það er bara kominn tími á að aðrar þjóðir fari að óttast okkur," sagði Steven Gerrard fyrirliði Liverpool og lykilmaður enska landsliðsins.

„Við komum á HM fullir sjálfstraust því að við vitum að við erum með mjög gott lið. Við eigum ýmislegt eftir ólært en eins og við spilum í dag þá lenda öll lið í erfiðleikum með okkur," sagði Steven Gerrard sem hefur fundið sig vel síðan að ítalski þjálfarinn tók við landsliðinu.

„Það er mitt mat að ég sé að spila betur fyrir enska landsliðið undir stjórn Fabio Capello og ein aðalástæðan er að ég mæti óttalaus til leiks. Hann hefur fengið liðið til þess spila án ótta og án þess að bera allar væntingarnar á herðunum," sagði Steven Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×