Íslenski boltinn

Umfjöllun: FH-grýlan lifur góðu lífi í vesturbænum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Guðnason var hetja FH í kvöld.
Atli Guðnason var hetja FH í kvöld. Mynd/Vilhelm
Íslandsmeistarar FH unnu góðan 2-1 sigur á bikarmeisturum KR í stórleik fimmtu umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld.

KR-ingar komust yfir með marki Bjarna Guðjónssonar snemma í síðari hálfleik en eins og svo oft áður í vor létu FH-ingar ekki slá sig út af laginu.

Þeir skoruðu tvívegis á síðasta hálftíma leiksins - fyrst Matthías Vilhjálmsson og svo Atli Guðnason undir lok leiksins.

KR-ingar mega vera heldur ósáttir við að fá ekkert úr þessum leik enda lék liðið vel á löngum köflum. Þeir geta þó engum nema sjálfum sér um enda þýðir lítið að leggjast í skotgrafirnar með 1-0 forystu gegn FH.

Daði Lárusson var besti maður FH í leiknum enda bjargaði hann glæsilega í þrígang frá heimamönnum. Tvisvar í fyrri hálfleik - frá Prince Rajcomar og svo Bjarna Guðjónssyni.

En hann kom engum vörnum við þegar að Bjarni fékk gott skotfæri utan teigs og lét vaða að marki. Boltinn hafnaði í netinu og héldu margir KR-ingar að langri bið þeirra eftir sigur á FH væri lokið.

En aldeilis ekki. Þá fyrst fóru Hafnfirðingar að spila sinn leik. Þeir héldu boltanum vel innan liðsins og fóru að nýta kantana betur. Það var einmitt vængmaðurinn Matthías Guðmundsson sem átti fyrirgjöfina á nafna sinn Vilhjálmsson í jöfnunarmarkinu. Sá síðarnefndi staðsetti sig vel í teig KR og skoraði með góðum skalla.

Freyr Bjarnason komst svo nálægt því að koma sínum mönnum í FH yfir með skalla eftir aukaspyrnu en hann náði ekki að stýra boltanum á markið.

Skömmu síðar komst Gunnar Örn Jónsson, leikmaður KR, í stórhættulegt færi eftir fyrirgjöf Gunnars Kristjánssonar. En enn og aftur var Daði á hárréttum stað og varði vel frá honum.

FH-ingar sóttu meira á lokamínútum leiksins og uppskáru gott mark. Þeir komust í efnilega sókn á 87. mínútu sem lauk með því að varamaðurinn Tryggvi Guðmundsson tók góða rispu að markinu, náði skoti sem Stefán Logi varði. En boltinn fór beint fyrir markið þar sem Atli var mættur og stýrði knettinum í autt markið.

KR-ingar þurfa því að bíða eitthvað lengur eftir sínum fyrsta sigri á FH í fimm ár.

KR - FH 1-2

1-0 Bjarni Guðjónsson (57.)

1-1 Matthías Vilhjálmsson (67.)

1-2 Atli Guðnason (87.)

KR-völlur. Áhorfendur: 2.370

Dómari: Valgeir Valgeirsson (7)

Skot (á mark): 12-10 (5-5)

Varin skot: Stefán Logi 3 - Daði 3.

Horn: 7-10

Aukaspyrnur fengnar: 15-14

Rangstöður: 1-0

KR (4-4-2):

Stefán Logi Magnússon 6

Skúli Jón Friðgeirsson 6

Grétar Sigurðarson 6

Mark Rutgers 7

Jordao Diogo 7

Gunnar Örn Jónsson 5

(84. Guðmundur Pétursson -)

Bjarni Guðjónsson 8

Jónas Guðni Sævarsson 7

Óskar Örn Hauksson 4

(69. Gunnar Kristjánsson 5)

Baldur Sigurðsson 6

Prince Rajcomar 6

(80. Björgólfur Takefusa -)

FH (4-3-3):

Daði Lárusson 8 - maður leiksins

Guðmundur Sævarsson 6

Pétur Viðarsson -

(19. Freyr Bjarnason 6)

Tommy Nielsen 7

Hjörtur Logi Valgarðsson 7

Matthías Vilhjálmsson 6

Björn Daníel Sverrisson 5

Davíð Þór Viðarsson 6

Matthías Guðmundsson 6

(77. Tryggvi Guðmundsson -)

Atli Viðar Björnsson 5

(70. Alexander Söderlund 5)

Atli Guðnason 6



Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa lýsingu leiksins hér: KR - FH.






Tengdar fréttir

Davíð: Bara sigurvegarar í FH

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var hæstánægður með sína menn eftir 2-1 sigur á KR á útivelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×