Innlent

Störf borgarstarfsmanna í óvissu

Oddvitar Samfylkingar og VG í borgarstjórn. Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir.
Oddvitar Samfylkingar og VG í borgarstjórn. Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir.
Minnihlutinn í borgarstjórn sat hjá við afgreiðslu á endurskoðaðri fjárhagsáætlun í dag. Í bókun borgarfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingarinnar segir að störf borgarstarfsmanna séu í óvissu á flestum sviðum borgarinnar og ljóst að kennurum fækki næsta haust. Borgarfulltrúarnir telja að leiðarljós aðgerðaráætlunar frá því í haust sé í uppnámi.

„Nú liggur endurskoðunin fyrir án þess að minnihlutinn hafi fengið aðkomu að vinnunni, né heldur þeim gögnum sem eru afrakstur hennar. Enginn faglegur rökstuðningur liggur fyrir þeirri forgangsröðun sem meirihlutinn leggur nú til, heldur eru áherslurnar fyrst og fremst bókhaldslegs eðlis," segir í bókun minnihlutans.

Borgarfulltrúarnir telja fráleitt að skera niður 260 milljónir til mannaflsfrekra viðhaldsframkvæmda. Atvinnuleysi sé ekki bara félagsleg meinsemd heldur afar kostnaðarsöm fyrir samfélagið til langs tíma. Borgaryfirvöld eigi að tryggja sem allra flestum einstaklingum störf.

Í bókuninni segir að gjaldskrár á leikskólum muni hækka samkvæmt fjárhagsáætluninni. Allir foreldrar sem nýti meira en átta klukkustundir þurfi að borga meira.

„Grunnþjónustan er ekki varin þegar til stendur að skera niður kennslumagn í 2.-4. bekk, alls 15 kennsluvikur. Grunnþjónustan er jafnframt skert því ekki á að þjónusta börn á frídögum skóla í frístundaheimilum. Þessi skerðing getur telast þjóðhagslega óhagkvæm og bitnar fyrst og fremst á ungum börnum og foreldrum þeirra."

Ytri forsendur áætlunarinnar hafa ekki verið leiðréttar og áætlunin í heild ber með sér að til stendur að stilla upp áætlun sem ekki er í samræmi við veruleikann heldur hluti af pólitísku sjónarspili meirihlutaflokkanna, segir í bókun borgarfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar.




Tengdar fréttir

Tekist á um endurskoðaða fjárhagsáætlun

Borgarfulltrúar tókust á um endurskoðaða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 á aukafundi borgarstjórnar í dag. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, sagði að áætlanir virðist ætli að standa. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, gagnrýndi að minnihlutinn hafi ekki fengið aðgang að vinnugögnum við endurskoðun fjárhagsáætlunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×