Erlent

Danir slaka á ströngum reglum

Óli Tynes skrifar
Danir ætla að slaka á ströngum reglum sem gilda um opnunartíma verslana. Það verður jafnvel leyft að hafa vissar verslanir opnar á sunnudögum.

Danir hafa verið dálítið sér á báti með opnunartíma verslana. Það hafa ekki aðeins verið stjórnmálamenn sem hafa deilt um þessar ströngu reglur heldur einnig aðilar í viðskiptalífinu.

Samtök stórmarkaða hafa viljað gefa opnunartíma alveg frjálsan en lágvöruverslanir eins og Co-op verið á móti. Nú hefur náðst samkomulag sem kynnt verður síðar í dag.

Danska blaðið Berlingske Tidende segir að samkomulagið feli í sér að frá fyrsta október árið 2012 komi fólk ekki lengur að luktum dyrum verslana á sunnudögum.

Stórmarkaðir þurfa þá aðeins að hafa lokað í 13 helgidaga á ári. Dagvöruverslanir sem velta minna en sem svarar 600 milljónum íslenskra króna á ári mega hafa opið alla daga ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×