Innlent

Sorpbrennslan horfir til útlanda eftir verkefnum

Til greina kemur að selja Sorpeyðingarstöð Suðurnesja til Þjóðverja og Bandaríkjamanna sem vilja brenna þar úrgangsolíu úr skipum. Einu verkefnunum sem hefur fjölgað að undanförnu er brennsla á eiturlyfjum.

Lán sem tekin voru til að byggja sorpeyðingu með brennsluofni á Suðurnesjum hafa tvöfaldast og nema nú 1200 milljónum króna. Þetta leggst þungt á sveitarfélögin á svæðinu sem eiga og reka stöðina saman en sorphirðugjald þegar er mun hærra en tíðkast annar staðar á landinu. Þar fyrir utan hefur dregið úr sorpi til stöðvarinnar á síðustu árum. Mjög hefur dregið úr byggingarframkvæmdum á svæðinu og þar með losun á iðnaðarúrgangi. Þá minnkaði sorp magn um fjórðung þegar varnarliðið yfirgaf svæðið.

Bregðast þarf við stöðunni og er leitað leiða til samstarfs við önnur sveitarfélög um sorpeyðingu eða selja stöðina. Til greina kemur að selja erlendum fjárfestum stöðina og segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, að þýskir og bandarískir aðilar hafi lýst yfir áhuga sínum á kaupum og því að fá að eyða þar úrgangsolíu úr skipum. Hann segir viðræður við þá þó hafa verið óformlegar.

Stöðin tók til starfa fyrir fimm árum, en þá voru áform um að banna urðun. Það hefur ekki enn verið gert, og því er stöðin ekki fullnýtt. Verkefnum hefur þó fjölgað á einu sviði en Arnar Magnússon starfsmaður segir að þeir hafi brennt mikið af eiturlyfjum sem lögreglan hefur gert upptæk. Grátlegt sé hve magnið sé mikið því líklega sé þetta aðeins brot þess sem reynt er að koma í umferð meðal fólks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×