Enski boltinn

Ebue hefur náð sér eftir baulið

NordicPhotos/GettyImages

Varnarmaðurinn Emmanuel Eboue hjá Arsenal segist vera sterkari og betri maður eftir að hafa lent í þeirri óskemmtilegu reynslu að verða fyrir bauli eigin stuðningsmanna í leik gegn Wigan um daginn.

Eboue kom inn sem varamaður í leiknum og röð skelfilegra sendinga urðu til þess að stuðningsmenn Arsenal tóku til við að baula á hann.

Mörgum til furðu skipti Arsene Wenger honum svo af velli aftur í blálokin og því svöruðu stuðningsmennirnir með því að fagna kaldhæðnislega.

Þessi reynsla virkaði sem algjör niðurlæging fyrir leikmanninn, en hann hefur hlotið nokkra uppreisn æru síðan.

"Já, mér finnst ég sterkari og ég á það að þakka félögum mínum í liðinu og þjálfurunum," sagði hann í samtali við heimasíðu Arsenal.

"Þeir hjálpuðu mér mikið eftir þessa uppákomu því ég var sjálfum mér reiður. Ég reyndi að gera mitt besta en stundum gengur bara ekkert upp hjá manni. Ég er líka þakklátur stuðningsmönnunum, því ég hef tekið við afsökunarbeiðnum frá fólki og fengið bréf um jólin. Það var mjög gott og nú líður mér betur," sagði Eboue.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×