Innlent

Sprenging í smygli á kannabisfræjum

Aldrei meira magn tekið af kannabisfræjum.
Aldrei meira magn tekið af kannabisfræjum.

Tollgæslan hefur tekið á annað þúsund kannabisfræja sem reynt var að smygla til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins. Segja má að um sprengingu sé að ræða, því allt árið í fyrra voru tekin 390 stykki.

Þá tók tollgæslan á ellefta kíló af amfetamíni fyrstu níu mánuðina, en tók á sjöunda kíló allt árið í fyrra. Einnig hafa 105 vopn verið gerð upptæk það sem af er árinu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum tölum Tollstjóra yfir ólöglegan varning og fíkniefni sem tollgæslan hefur stöðvað á árinu.

„Þetta er unnið í góðu samstarfi við lögregluyfirvöld, en lögregla rannsakar til dæmis öll fíkniefnamál,“ segir Karen Bragadóttir, forstöðumaður tollasviðs. Hún segir að sú þróun að tollgæsla hafi tekið umtalsvert meira af amfetamíni, en minna af kókaíni á árinu en allt árið í fyrra geti verið vísbending um að menn séu að leita í ódýrara efni.

Amfetamínið sé að miklu leyti sent frá Hollandi og Danmörku.

Hvað varðar margföldun á magni kannabisfræja sem tekið hefur verið í ár, miðað við 2008, segir Karen að líklegt sé að framleiðsla á kannabis sé að færast hingað til lands, eins og lögregla hafi bent á í kjölfar töku margra stórra kannabisverksmiðja.

„Fræin sem tekin hafa verið hafa nær eingöngu verið í póstsendingum,“ segir hún. „Í tengslum við stóraukið magn þeirra vekur athygli að lítið virðist vera reynt að smygla inn hassi og maríjúana. Þarna er klárlega samhengi í þróuninni.“

Mun færri vopn hafa verið haldlögð í ár en í fyrra því þá voru þau 455 talsins á Keflavíkurflugvelli einum. Ekki liggja fyrir tölur á landsvísu frá 2008.

„Þessi fækkun er talin að stórum hluta til komin af því að Íslendingar hafa dregið svo mikið úr ferðalögum,“ segir Karen. „Mikið af haldlögðum vopnum hefur komið í farangri fólks frá Spáni í gegnum tíðina, svo sem hnúajárn, fjaðurhnífar, loftbyssur, eggvopn, handjárn og fleira af því tagi.“

Magn stera sem tollgæsla hefur haldlagt hefur margfaldast á milli ára, eins og fram hefur komið. Þeir eru sendir frá Póllandi, Ungverjalandi, Rúmeníu, Bretlandi og Taílandi.

Karen undirstrikar mikilvægi góðrar samvinnu tollgæslunnar við meðal annars lögreglu, Lyfjastofnun og Matvælastofnun, sem sé undirstaða góðs árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×