Enski boltinn

Benitez: Engin pressa

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez knattspyrnustjóri Liverpool segir sína menn ekki undir meiri pressu en áður fyrir leikinn við Everton í kvöld þó Manchester United hafi rifið af þeim toppsætið í úrvalsdeildinni.

United skaust á toppinn með naumum 1-0 sigri á Bolton á útivelli um helgina og hefur nú eins stigs forskot á fjendur sína í Liverpool.

Benitez segir hinsvegar að staðan í töflunni sé ekki það sem skiptir mestu máli á þessum tímapunkti.

"Ég átti aldrei von á að vinna titilinn í janúar. Maður vinnur titilinn í maí," sagði Spánverjinn fyrir heimsókn Everton á Anfield í kvöld.

"Það skiptir engu máli hvað Manchester United gerir - við verðum að fá þrjú stig úr hverjum einasta leik - sérstaklega þegar um grannaslag er að ræða. Það er smá taugaspenna í mönnum vegna þeirra stöðu sem við erum í, en við verðum að halda ró okkar og taka einn leik fyrir í einu," sagði Spánverjinn, sem hefur unnið þrjá af fjórum heimaleikjum sínum gegn Everton.

Everton hefur verið á fínu skriði undanfarið þrátt fyrir mikil meiðslavandræði. Liðið hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni og hefur haldið hreinu í fimm síðustu leikjum.

"Everton er á góðri siglingu og verst mjög vel, svo við verðum að spila vel til að vinna þennan leik. Við verðum að sýna stuðningsmönnum okkar að við séum einbeittir í verki."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×