Enski boltinn

Jafnt hjá Tottenham og Portsmouth

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jermain Defoe fagnar marki sínu gegn Portsmouth í dag.
Jermain Defoe fagnar marki sínu gegn Portsmouth í dag. Nordic Photos / Getty Images
Harry Reknapp, stjóri Tottenham, náði ekki að stýra sínum mönnum til sigurs gegn sínu gamla félagi, Portsmouth, í síðari leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham fékk þó fleiri færi í leiknum og hefði átt að gera út um hann í lokin. Það var þó David Nugent sem kom Portsmouth yfir í leiknum en Jermain Defoe jafnaði metin fyrir Tottenham.

Úrslitin þýðá að Tottenham er í sextánda sæti deildarinnar með 21 stig en nú eru fimm neðstu lið deildarinnar jöfn að stigum - Tottenham, Blackburn, Middlesbrough, Stoke og West Brom.

Þrjú lið eru í 13.-15. sæti með 23 stig - Bolton, Newcastle og Sunderland. Portsmouth er svo í tólfta sætið með 24 stig.

Redknapp gerði eina breytingu á liði Tottenham. Aaron Lennon kom inn fyrir Michael Dawson sem þýddi að Ledley King var aftur kominn í stöðu miðvarðar. Jermain Defoe, sem kom nýverið frá Portsmouth, var í byrjunarliði Tottenham.

Tony Adams gerði einnig eina breytingu á sínu liði en Sean Davis kom inn fyrir Mark Wilson. Hermann Hreiðarsson var sem fyrr á varamannabekk liðsins.

Það var ekkert skorað í fyrri hálfleik en nóg um færi. Defoe fékk það fyrsta en skaut fram hjá úr góðu færi. David James, markvörður Portsmouth, varði svo vel frá Lennon skömmu síðar.

Reyndar átti James frábæran leik í dag og varði oft vel frá leikmönnum Tottenham, til að mynda góðan skalla Ledley King.

David Nugent átti eitt besta færi Portsmouth í fyrri hálfleik er hann fékk stungusendingu frá Niko Kranjcar í gegnum vörn Tottenham en Heurelho Gomes var vel á verði.

Tottenham byrjaði betur í síðari hálfleik en það voru gestirnir sem komust yfir á 59. mínútu. Og þar var það David Nugent að verki með sitt fyrsta mark í úrvalsdeildinni.

David James var nýbúinn að bjarga glæsilega frá Aaron Lennon. Portsmouth komst í skyndisókn og Armand Traore kom boltanum á Nugent sem skoraði með skoti sem hafði reyndar viðkomu í Gareth Bale.

En aðeins ellefu mínútum síðar náði Jermain Defoe að jafna metin. Luka Modric kom boltanum á Defoe sem skoraði með góðu skoti.

Darren Bent fékk svo eitt besta færi tímabilsins þar sem hann hefði getað tryggt Tottenham sigurinn. David Bentley átti glæsilega fyrirgjöf frá vinstri sem rataði beint á kollinn á Bent sem var einn og óvaldaður á fjarstöng. En hann skallaði boltann framhjá. Niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Hermann Hreiðarsson kom inn á sem varmaður seint í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×