Erlent

Hart deilt enn á ný um fóstureyðingar

Bill Clinton, fyrrverandi forseti, mætti á fund demókrata í öldungadeildinni til að stappa í þá stálinu fyrir baráttuna fram undan um heilbrigðistryggingar. nordicphotos/AFP
Bill Clinton, fyrrverandi forseti, mætti á fund demókrata í öldungadeildinni til að stappa í þá stálinu fyrir baráttuna fram undan um heilbrigðistryggingar. nordicphotos/AFP
Deilur um fóstureyðingar eru orðnar háværar enn á ný í Bandaríkjunum eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti að framlengja bann við því að ríkið taki þátt í að greiða kostnað við fóstureyðingar.

Málið kemur fljótlega til kasta öldungadeildar þingsins. Bæði andstæðingar og fylgismenn fóstureyðinga hafa blásið í herlúðra og ætla að beita öllum þeim þrýstingi sem hægt er til að hafa áhrif á niðurstöðu þingdeildarinnar.

Eins og frumvarpið liggur fyrir í öldungadeild er ekkert ákvæði í þeim um fóstureyðingar. Andstæðingar fóstureyðinga berjast nú fyrir því að farin verði svipuð leið og í fulltrúadeildinni.

Jan Schakowsky, einn þingmanna demókrata í fulltrúadeildinni, segir fáránlegt að ætlast til þess að konur kaupi sér sérstaka tryggingu til að greiða fyrir fóstureyðingu. „Engin skipuleggur óvænta þungun,“ segir hann.

Flestir repúblikanar og nokkrir tugir demókrata samþykktu fóstureyðingarákvæðið í frumvarpi um heilbrigðistryggingar, sem afgreitt var frá deildinni á laugardag. Ólíklegt þykir að frumvarpið hefði fengist samþykkt án þessa ákvæðis.

Barack Obama Bandaríkjaforseti segist vonast til þess að geta undirritað lögin, samþykkt frá báðum deildum, fyrir áramót.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×