Innlent

Dómsgerð nauðgarans skilar sér á morgun

Breki Logason skrifar

Héraðsdómur Reykjavíkur ætlar í fyrramálið að senda gögn vegna nauðgunarmáls til ríkissaksóknara. Skortur á þeim varð til þess að dæmdum nauðgara og hrotta var sleppt úr varðhaldi í gær. Konan sem varð fyrir árás mannsins lifir í ótta um að rekast á hann á götu.

Eugenio Daudo Silva Chipa er þrítugur Portúgali sem hefur verið búsettur hér á landi. Hann var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun sem átti sér stað í Hafnarfirði í maí á þessu ári, honum var einnig gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Það var Ríkissaksóknari sem fór fram á að maðurinn sætti gæsluvarðhaldi þar til Hæstiréttur væri búinn að dæma í málinu. Það var gert á grundvelli almannahagsmuna, og hafði Hæstiréttur þegar fallist á að slíkir hagsmunir væru til staðar, í þessu alvarlega máli.

Í gær felldi Hæstiréttur hinsvegar úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir manninum og gengur hann því laus. Ástæðan var sú að svokallaðar dómsgerðir höfðu ekki borist frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Maðurinn var hinsvegar settur í farbann.

Réttargæslumaður konunnar segir að skiljanlega þyki henni óþægilegt að vita af manninum lausum, enda sé stutt síðan brotið átti sér stað og hún gæti allt eins rekist á hann úti í búð.

Sigríður Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari sótti málið fyrir Héraðsdómi í sumar. Hún segir afar bagalegt að málið skuli ekki hafa verið sett í forgang, þar sem maðurinn sat í gæsluvarðhaldi.

Helgi I. Jónsson, dómsstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir að menn hafi verið meðvitaðir um hvernig málið stæði og um það álag sem er á starfsfólki Héraðsdómsstóls. Hann segir að breyta þurfi reglum þannig að Ríkissaksóknari sjái algjörlega um áfrýjun mála til Hæstaréttar. Hann segir ennfremur að dómsgerðir í málinu verði sendar ríkissaksóknara strax á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×