Enski boltinn

Ferguson næstum búinn að taka Tevez út af

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagði eftir sigur sinna manna á Bolton í dag að hann hefði næstum verið búinn að taka Carlos Tevez út af skömmu áður en hann lagði upp sigurmark United í leiknum.

Dimitar Berbatov tryggði United sigurinn með marki á lokamínútu leiksins en með sigrinum fór United á topp deildarinnar.

Það liðu því næstum 180 mínútur á milli marka hjá United en fyrr í vikunni tryggði Wayne Rooney liðinu 1-0 sigur á Wigan á miðvikudagskvöldið.

„Þetta er ný taktík," sagði Ferguson í léttum dúr um skiptinguna sem næstum varð. „Fá einhvern til að gera sig kláran á hliðarlínunni og sjá svo hvað gerist."

„En ég var tilbúinn að taka Carlos út af þegar hann býr til þetta mark. Danny Welbeck er stór strákur og fannst að hann gæti kannski nýtt sér fyrirgjafirnar betur. Ég er alltaf tilbúinn til þess að taka áhættur í þessu."

„Það skiptir ekki höfuðmáli að vera á toppnum í dag," sagði Ferguson. „En það er samt gott enda vill maður þarna vera. Við höfum verið að elta hin liðin hvað varðar fjölda leikja og eigum enn einn leik inni gegn Fulham þann 14. febrúar."

„Það verður fyrst eftir þann leik sem maður fær góða sýn á okkar stöðu samanborið við bæði Liverpool og Chelsea."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×