Enski boltinn

United komið á Wembley

Elvar Geir Magnússon skrifar
Nani kom United á bragðið.
Nani kom United á bragðið.

Evrópu- og Englandsmeistarar Manchester United unnu í kvöld 4-2 sigur á 1. deildarliði Derby á Old Trafford.

United er þar með komið í úrslitaleik enska deildabikarsins með samtals 4-3 sigri úr tveimur undanúrslitaleikjum.

Nani braut ísinn fyrir United í fyrri hálfleik með stórglæsilegu skoti sem hafnaði í stönginni og inn. John O'Shea og Carlos Tevez bættu við mörkum fyrir hlé og United með þriggja marka forystu í hálfleik.

Giles Barnes hleypti lífi í leikinn þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en hann minnkaði þá muninn í 3-1 úr vítaspyrnu sem dæmd var á Johnny Evans. Derby þurfti þá bara eitt mark til að fá leikinn í framlengingu og eiga möguleika á að vinna á útivallarmörkum.

United skoraði þá sitt fjórða mark þegar varamaðurinn Cristiano Ronaldo skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið var á Carlos Tevez. Barnes minnkaði muninn í blálokin í 4-2 en lengra komst Derby ekki og United er komið í úrslitaleik deildabikarsins sem fram fer á Wembley.

United mætir að öllum líkindum Tottenham í úrslitaleik en Tottenham vann fyrri leikinn gegn Burnley 4-1. Liðin mætast í seinni viðureign sinni annað kvöld á heimavelli Burnley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×