Íslenski boltinn

Halldór Orri: Hefðum átt að setja mark á þá snemma leiks

Ómar Þorgeirsson skrifar
Halldór Orri Björnsson.
Halldór Orri Björnsson. Mynd/Valli

Framherjinn Halldór Orri Björnsson bar fyrirliðabandið hjá Stjörnunni í 1-4 tapi liðsins gegn FH í Pepsi-deildinni í kvöld í fjarveru Daníels Laxdal sem tók út leikbann.

Halldór Orri var svekktur í leikslok og taldi Stjörnumenn hafa farið illa að ráði sínu með að hafa ekki náð að nýta sér betur ágætan leikkafla liðsins á upphafsmínútunum til þess að skora mark.

„Svekkelsið er talsvert sérstaklega í ljósi þess sem mér fannst við byrja leikinn af krafti og það hefði verið lag að setja eitt mark á þá snemma leiks. Í stað þess að fá mark beint í andlitið eftir að við höfðum verið að skapa meiri hættu.

Við duttum svolítið niður eftir það og þeir ná að bæta við öðru marki. Þegar þriðja markið kemur svo snemma í síðari hálfleik þá var þetta orðið erfitt en við gáfumst ekkert upp og náum að pota inn einu marki," segir Halldór Orri.

Halldór Orri var ennfremur svekktur með að tapa á heimavelli í kvöld en Stjörnumenn höfðu ekki tapað deildarleik þar í rúmt ár og unnið þar sex af sjö leikjum sínum í Pepsi-deildinni fram að leiknum í kvöld.

„Það hlaut að koma að því en virkilega leiðinlegt að það hafi þurft að gerast þar sem við töluðum um að vinna þá fjóra heimaleiki í deildinni sem við áttum eftir í sumar. Það gekk ekki en það þýðir ekki að hugsa meira um það.

Nú er það bara næsti leikur og það er fínt að fá að spila strax aftur á sunnudag eftir svona útreið eins og í kvöld," segir Halldór Orri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×