Íslenski boltinn

Ólafur hljóp hálfmaraþon eftir sigurinn í Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson langhlaupari.
Ólafur Kristjánsson langhlaupari. Mynd/Vilhelm

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, gerði sér lítið fyrir og hljóp heim í Kópavoginn eftir að hans menn unnu 3-0 sigur á Keflavík á útivelli í Pepsi-deildinni í gær.

Eins og Ólafur sagði við Vísi eftir leikinn í gær var hann búinn að lofa því að hlaupa heim ef hans menn myndu vinna leikinn. Og hann stóð við stóru orðin og hljóp frá Kúagerði heim í Kópavoginn - samtals rúman 21 kílómeter eða hálfmaraþon.

„Ég hef nú aldrei gert svona vitleysu áður og hlupið svona langt," sagði Ólafur í samtali við Vísi í dag. „Enda hljóp ég ekkert sérstaklega hratt. Þetta tók mig um tvær klukkustundir og átta mínútur og klukkan var orðin hálf eitt þegar ég kom á leiðarenda. Það var í lagi með lungun á mér en öll orka var farin úr löppunum."

Leikmennirnir fóru eftir leikinn á veitingastaðinn Players í Kópavogi eftir leikinn þar sem þeir fengu sér að borða og biðu þeir Ólafs þar. Honum var vel fagnað við komuna.

Ólafur segir að leikmennirnir eigi nú næsta leik. „Þeir verða að koma með eitthvað almennilegt. Ég get ekki staðið einn í þessu," sagði hann í léttum dúr. „En annars er þetta bara gert til að skapa góða stemningu í liðinu. Við vorum duglegir í þessu síðastliðið sumar og tímabært nú að hrista aðeins upp í þessu."






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×