Erlent

Vígasveit talibana myrti tuttugu

MYND/AP
Vígasveit talibana myrti tuttugu manns í sjálfsmorðsárás í Kabúl höfuðborg Afganistans í dag. Það þykja ótíðindi að ekki skuli hægt að verja höfuðborgina.

Átta talibanar íklæddir sprengjuvestum réðust á dómsmálaráðuneytið í Kabúl og fangelsismálastofnunina sem er við hlið þess. Árásarmennirnir voru vopnaðir hríðskotarifflum og skutu alla sem á vegi þeirra urðu. Fimm réðust inn í dómsmálaráðuneytið og þrír á fangelsismálastofnunina.

Afganskir stjórnarhermenn komu fljótlega á vettvang og þustu á eftir þeim fimm sem komust inn í ráðuneytið.

Þar varð harður skotbardagi sem lauk með því að allir árásarmennirnir voru skotnir til bana. Enginn þeirra notaði vesti sitt til þess að sprengja sig í loft upp.

Það gerðu hinsvegar þeir þrír sem réðust á fangelsismálastofnunina. Alls myrtu þeir tuttugu manns og særðu fimmtíu og sjö.

Talibanar eiga flest víghreiður sín í suður- og austurhluta landsins. Þessi árás sýnir hinsvegar að það eru fáir öruggir staðir í landinu.

Talibönum hefur verið að vaxa fiskur um hrygg undanfarin misseri og Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur ákveðið að fjölga hermönnum í Afganistan.

Það verður gert jafnframt því að fækka verður í herliðinu í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×