Innlent

Meirihlutinn klofinn í efnahags- og skattanefnd

Meirihluti í efnahags- og skattanefnd er klofinn í afstöðu sinni til frumvarps um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans. Þingmenn VG og Samfylkingar í nefndinni standa að tveimur álitum til fjárlaganefndar. Ögmundur Jónsson, þingmaður VG, segir að ekki sé um klofning að ræða heldur mismunandi áherslur. Hann og Lilja Mósesdóttir eiga sæti í nefndinni fyrir hönd VG.

Fjárlaganefnd hefur beðið eftir áliti efnahags- og skattanefndar til að geta afgreitt málið úr nefndinni. Björn Valur Gíslason, samflokksbróður Ögmundar, sagðist í samtali við fréttastofu fyrr í dag eiga vona á því að frumvarpið verði afgreitt úr fjárlaganefnd á mánudag.

Ögmundur vill ekki meina stjórnarmeirihlutinn sé klofinn í málinu. Þetta sé mat sitt og Lilju á efnahagslegum forsendum frumvarpsins. „Menn kjósa að segja hug sinn. Ef að hann er ekki endilega í sama afmarkaða farveginum þá fara menn fram sitt í hvoru lagi," segir þingmaðurinn.

Lilja hefur lýst því yfir að hún muni ekki styðja frumvarpið. Aðspurður vill Ögmundur ekki gefa upp hver afstaða hans sé. Hann hafi talað fyrir því að málið fái þinglega meðferð og af því loknu muni afstaða hans liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×