Enski boltinn

Tekst Burnley hið ómögulega?

Jóhannes Karl og félagar þurfa að vinna Tottenham með minnst þremur mörkum
Jóhannes Karl og félagar þurfa að vinna Tottenham með minnst þremur mörkum NordicPhotos/GettyImages

Burnley tekur í kvöld á móti Tottenham í síðari undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum.

Þar þarf B-deildarliðið á kraftaverki að halda ef það ætlar sér í úrslitaleikinn eftir að hafa tapað fyrri leiknum 4-1 á White Hart Lane.

Burnley hafði reyndar yfir 1-0 í hálfleik en Tottenham héldu engin bönd í síðari hálfleik þar sem liðið tryggði sér auðveldan sigur.

Jóhannes Karl Guðjónsson verður væntanlega með liði Burnley í kvöld en hann meiddist reyndar í fyrri leik liðanna á dögunum. Hann var í byrjunarliði Burnley í deildarleik um síðustu helgi.

Tottenham á titil að verja í keppninni og mætir Manchester United í úrslitum ef ekki kemur til stórslys í kvöld. Í liðið vantar nokkra lykilmenn í kvöld, þ.a.m. fyrirliðann Ledley King sem er meiddur á læri.

Markvörðurinn skrautlegi Heurelho Gomes er meiddur og útlit er fyrir að Harry Redknapp gefi hinum unga Ben Alnwich tækifæri í hans stað.

Bein útsending frá leiknum hefst klukkan 19:40 á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×