Íslenski boltinn

Bjarni: Erum ekki að svekkja okkur á FH á þessarri stundu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Bjarni Jóhannsson.
Bjarni Jóhannsson.

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, var léttur og kátur í leikslok á Stjörnuvellinum eftir dramatískt 1-1 jafntefli gegn KR.

„Ég er rosalega sáttur með að verja stigið því það var ekki úr miklu að moða þegar upp var staðið. Ég tel að við höfum sýnt mikinn karakter og barist grimmilega til þess að fá þetta stig og við gerðum vel úr því sem komið var. Okkur gekk illa að opna þá og bæði lið voru að spila mikinn kraftabolta og það var gefinn nokkuð grófur og ákveðinn tónn um það snemma leiks og liðin náðu ekki að vinna sig út úr því," segir Bjarni.

Jafnteflið þýðir að Stjörnumenn eru enn taplausir á heimavelli sínum í sumar og eru raunar ekki búnir að tapa deildarleik þar síðan fyrir tæpu ári síðan þegar Haukar unnu 4-5 sigur. Jafnteflið þýðir jafnframt að nýliðarnir hanga áfram í toppbaráttunni.

„Við finnum okkur vel á heimavelli og ég reyndar veit ekki um neitt lið sem finnur sig ekki vel á heimavelli. Ég vona svo sannarlega að þetta haldi áfram. Stuðningsmenn okkar eiga líka hrós skilið því þetta eru snillingar og hafa staðið sig frábærlega í sumar. Við erum annars ekkert að svekkja okkur yfir FH á þessarri stundu. Ég held að Valur og KR ættu frekar að gera það. Skútan okkar er bara á góðri siglingu og heldur á undan áætlun ef eitthvað er," segir Bjarni glaður í bragði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×