Innlent

Segja SA og verkalýðshreyfinguna ekki taka niðurstöður síðustu þingkosninga alvarlega

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Framtíðarlandið, samtöku áhugafólks um framtíð Íslands, segja Samtök Atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna ekki taka alvarlega niðurstöður síðustu þingkosninga. Í tilkynningu frá samtökunum segir að talsmenn Samtaka atvinnulífsins séu meðal þeirra sem hæst hafa kallað á uppbyggingu stóriðju. Þeim sé ómögulegt að sjá nýja möguleika í stöðunni eða draga lærdóm af uppbyggingu nýrra útflutningsfyrirtækja svo sem á sviði hugbúnaðar, tölvuleikja og sjónvarpsþátta (Latibær) sem hafa ekki verið gæluverkefni stjórnmálamanna. Svipað megi segja um viðsemjendur þeirra í verkalýðshreyfingunni. Stóriðjuframkvæmdir séu sameiginlegt áhugamál þeirra og því markmiði skal náð með öllum ráðum.

„Í vor gengu landsmenn til kosninga og nýr þingmeirihluti varð til. En vart var búið að telja upp úr kjörkössum þegar fréttist að samtök á vinnumarkaði, hefðu sett saman nýja efnahagsstefnu, svonefndan stöðugleikasáttmála. Undirskriftar forsætisráðherra var krafist, ella skyllu á verkföll eða óraunhæfar kröfur um kauphækkanir. Í sáttmálanum er meðal annars kveðið á um að ríkisstjórnin muni greiða götu stórframkvæmda svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Þá var nefnt að kappkosta eigi að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009," segir í tilkynningunni.

Þá segir að nú sé til dæmis vitnað til stöðugleikasáttmálans vegna ákvörðunar umhverfisráðherra um umhverfismat vegna Suðvesturlínu. Stjórnvöld hafi lofað því að greiða götu slíkra framkvæmda.

„Einkennilegt er að litlar umræður skuli fara fram um þýðingu þess fyrir lýðræði í landinu að stjórnvöld afsali sér valdi í hendur samtaka á vinnumarkaði. Sjálfsagt er að hlusta á rödd vinnumarkaðssamtaka eins og annarra, en annað mál er að fela þeim hluta af framkvæmdavaldinu. Hafi þeir áhuga á að stjórna landinu ættu þeir að freista þess að fá til þess umboð, með því að bjóða sig fram í almennum kosningum."

Þá segir að tvö stærstu orkufyrirtækin í opinberri eigu eigi nú erfitt með að afla fjár til frekari framkvæmda. Þau séu gríðarlega skuldsett og lánshæfismat þeirra hafi lækkað verulega síðasta árið. Um mitt ár námu skuldir Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur um 625 milljörðum króna.

„Í því ljósi vekur athygli að stjórnendur lífeyrissjóða hugleiði að lána þeim. Sérstökum áhyggjum valda hugmyndir um Fjárfestingarsjóð lífeyrissjóða, en honum er ætlað að setja fé í fyrirtæki sem eru fjárhagslega illa sett. Meðal annars á að líta til starfsemi sem aflar gjaldeyristekna eða sparar gjaldeyri með starfsemi sinni. Lífeyrissjóðir eiga að vinna að því einu að ávaxta fé sjóðfélaga sem best. Þeim á ekki að setja pólitísk markmið. Slíkt væri að vísu lítið áhyggjuefni ef sjóðfélagar gætu flutt sparnað sinn annað. En skylduaðild að lífeyrissjóðum gerir það sérstaklega mikilvægt að þeim sé ekki beitt í pólitískum tilgangi. Það er aldrei mikilvægara en nú að stjórnvöld verji hagsmuni almennings og stuðli að öguðum vinnubrögðum við stórframkvæmdir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×