Íslenski boltinn

Þriggja ára sonur Tryggva hljóp inn á Vodafonevöllinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sonur Tryggva vildi fá að vera með í gær.
Sonur Tryggva vildi fá að vera með í gær. Mynd/Valli

Áhugaverð uppákoma átti sér stað á Vodafonevellinum í gær þegar Valur tók á móti FH í Pepsi-deild karla.

Lítill snáði náði að vippa sér inn á völlinn og var líklega kominn um tíu metra inn á völlinn þegar móðir hans náði loksins í skottið á honum.

Hann hljóp inn á vallarhelming Valsmanna og sem betur fer átti atvikið sér stað í eitt af þeim örfáu skiptum sem Valsmenn voru í sókn. Hættan var því engin.

Þarna var á ferðinni hinn þriggja ára gamli Tristan Alex Tryggvason, sonur markaskorarans Tryggva Guðmundssonar.

„Mér skilst að hann hafi verið að hlaupa til mín. Ég missti reyndar af þessu atviki," sagði Tryggvi en Tristan fór mikinn í stúkunni og sló í gegn hjá stuðningsmönnum FH.

„Hann var víst á fullu í stúkunni að berja á trommur og blása í lúðra. Líf og fjör hjá honum," sagði Tryggvi en hvernig ætli móðurinni hafi liðið þegar hún sá barnið inn á vellinum?

„Hún hálfskammaðist sín. Það var annars nóg að gera hjá henni á leiknum enda tók hún öll fjögur börnin með sér. Það var í mörg horn að líta hjá henni," sagði Tryggvi sem segir hinn unga Tristan vera efni í hörkufótboltamann.

Hann þarf samt að bíða aðeins lengur áður en hann fær að taka þátt í meistaraflokksleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×