Íslenski boltinn

Jóhann: Mikið sjálfstraust í liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Þórhallsson í leik með Fylki.
Jóhann Þórhallsson í leik með Fylki. Mynd/Anton
Jóhann Þórhallsson skoraði þrennu eftir að hafa komið inn á sem varamaður í 6-1 sigri Fylkis á Fjarðabyggð í VISA-bikarkeppninni í kvöld.

Jóhann skoraði tvívegis stuttu eftir að hann kom inn á í upphafi síðari hálfleiks. Þriðja markið skoraði hann svo undir lok leiksins.

„Það er alltaf gaman að skora en þetta snerist um að koma grimmur inn og nýta þær mínútur sem ég fékk. Ég er ekki í mínu besta leikformi en þetta hjálpar til og eykur sjálfstraustið hjá liðinu," sagði Jóhann sem kom seint til æfinga með Fylki í vor þar sem hann var í námi í Bretlandi í vetur.

Hann segir talsverðan mun á Fylkisliðinu nú og þegar hann hélt utan í haust.

„Ég er rétt núna að átta mig á þessu. Við erum þéttari fyrir og vinnum betur saman lið. Það er gríðarlega mikið sjálfstraust í liðinu og það er að skila sér."

Fylkir hefur nú skorað þrettán mörk tveimur leikjum sínum í bikarkeppninni en liðið vann 7-3 sigur á Stjörnunni í 32-liða úrslitunum.

„Við erum að spila góðan varnarleik og þeir reynslumeiri í liðinu eru gríðarlega sterkir og hjálpa ungu strákunum og sóknarmönnunum að gera sitt."

Fylkir mætir næst FH í Pepsi-deild karla en síðarnefnda liðið er með dágóða forystu á toppi deildarinnar eftir að hafa unnið tíu leiki í röð.

„Við verðum að trúa því að við getum unnið þá," sagði Jóhann. „Við unnum í Kaplakrika í fyrra og þetta verður án efa mikill bardagi nú. Við ætlum að gera allt sem við getum til að halda spennu í þessari deild. Við höfum trú á því að við getum unnið þá enda förum við í alla leiki til að vinna þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×