Enski boltinn

Cole: Spjörum okkur án Bellamy

Elvar Geir Magnússon skrifar

Carlton Cole, leikmaður West Ham, segir að liðið sé alveg nægilega gott til að geta verið án Craig Bellamy. Manchester City gekk í kvöld frá kaupum á Bellamy.

„Það var ekki erfitt að sleppa því að hugsa út í allt sem hefur verið í gangi með Craig. Við erum atvinnumenn og verðum að halda áfram að vinna okkar vinnu," sagði Cole en liðið vann Fulham 3-1 um helgina. Bellamy var ekki í leikmannahópi West Ham í þeim leik.

„Allir hafa verið í svipaðri stöðu áður og við höfum fengið verri fréttir framan í okkur. Craig hefur sínar skoðanir og þær breyta okkur ekkert. Okkur gekk vel meðan Craig var meiddur á síðasta tímabili. Af hverju ættum við ekki að geta það aftur?"

„Craig hefur verið okkur mikilvægur og náð að auka sjálfstraustið þegar hann er í liðinu. Hann er frábær leikmaður en við verðum að halda áfram okkar vinnu," sagði Cole. West Ham hefur stokkið upp í áttunda sæti ensku úrvalsdeildinnar eftir þrjá sigurleiki af fjórum leikjum.

„Ég hef verið að gera mitt besta og lagt mig allan fram á öllum æfingum. Ég er með ákveðin persónuleg markmið sem ég ætla samt ekki að opinbera," sagði Cole sem hefur verið að leika sérlega vel að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×