Innlent

Rændur í annað sinn á skömmum tíma

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Hreinsað var undan bíl Viðars aðfaranótt mánudags.
Hreinsað var undan bíl Viðars aðfaranótt mánudags.
„Ég ætla að vona að ég hafi ekki gert neinum neitt svo ég eigi þetta skilið," segir Viðar Már Þorsteinsson, símsmiður, sem hefur lent í því í með skömmu millibili að annarsvegar reiðhjóli hans og hinsvegar dekkjum og felgum undan bílnum hans hafi verið stolið. Hann telur allt eins líklegt að hann fá seinna tjónið ekki bætt.

„Þetta er örugglega bara tilviljun en vitanlega fær maður á tilfinninguna að verið sé að ráðast gegn mér því það er ekki snert við eigum annarra," segir Viðar Már sem er búsettur í Vallarási í Árbæjarhverfi. Hann veit ekki um önnur áþekk tilfelli í þeim þeim hluta hverfisins.

Á meðan hann var í sumarfrí í lok júlí var reiðhjóli, sem hann notar til að komast til og frá vinnu, stolið. Hjólið var í læstri hjólageymslu. Viðar segist hafa fengið tjónið bætt.

Hreinsað undan bílnum

Það var svo aðfaranótt mánudags þegar hreinsað var undan bílnum hans og dekkjum og felgum stolið þar sem bílinn stóð á bílastæði fyrir utan heimili Viðars. „Eina sem ég fékk í staðinn voru tveir ónýtir tjakkar."

Lögregla kom á staðinn og tók skýrslu í gærmorgun en Viðari fannst lögreglumennirnir hálf áhugalausir vegna þessa máls. „Svo kvöddu þessir ágætu menn en ég geri mér grein fyrir því að þeir hafa nóg að gera."

Ekki bjartsýnn

Viðar er ekki ekkert alltof bjartsýnn á að hann fái tjónið bætt og á því allt eins von á að þurfa sjálfur að leggja út rúmar 200 þúsund krónur vegna tjónsins. „Ég hef margt annað við peninginn að gera, til að mynda að borga lán eins og aðrir."

Viðar segir að í grennd við bílastæðið séu þrjú til fjögur fjölbýlishús. Hann biður þá sem urðu varir við óeðlilegar mannaferðir í grennd við Vallarás aðfaranótt mánudags að hafa samband við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×