Innlent

Áhersla lögð á að klára Icesave fyrir mánaðamót

Greiðsluskylda Tryggingasjóðs innstæðueigenda vegna Icesave varð virk fyrir rúmum mánuði og segir fjármálaráðherra mikilvægt að klára afgreiðslu Icesave í þessum mánuði. Ekki sér hins vegar fyrir endann á ræðum stjórnarandstöðunnar um málið.

Önnur umræða um seinna Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á fimmtudag í síðustu viku og hélt síðan áfram á þriðjudag og í gær og verður framhaldið á Alþingi í dag. Nú eru 18 þingmenn stjórnarandstöðunnar á mælendaskrá og ef þeir nota allir ræðutíma sinn til fulls tæki sú umræða rúma sex klukkustundir.

Ekkert hindrar stjórnarandstöðuþingmenn hins vegar í að setja sig á mælendaskrá og geta þeir fræðilega séð talað um málið eins lengi og þeim sýnist. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir ríkisstjórnina leggja áherslu á að klára Icesavemálið fyrir mánaðamót.

Að auki segir fjármálaráðherra mikilvægt að þingmenn hafi tíma til að afgreiða fjárlög, skattafrumvörp og önnur mál sem bundin séu áramótunum með vönduðum hætti. Stjórnarandstaðan hefur boðið að Icesave verði ýtt til hliðar og önnur mikilvæg mál tekin til afgreiðslu.

Að loknum óundirbúnum fyrirspurnum sem lauk klukkan ellefu, ræddu þingmenn fundarstjórn forseta í fjörtíu mínútur. Önnur umræða um Icesave hélt síðan áfram klukkan tuttugu mínútur fyrir tólf. Þá hélt Tryggvi Þór Herbertsson Sjálfstæðisflokki áfram ræðu sinni sem hann gerði hlé á þegar þingfundi lauk upp úr klukkan eitt í nótt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×