Enski boltinn

Darlington í greiðslustöðvun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Darlington fagna marki.
Leikmenn Darlington fagna marki. Nordic Photos / Getty Images

Enska D-deildarfélagið Darlington hefur tilkynnt að félagið sé komið í greiðslustöðvun og verða því tíu stig tekin sjálfkrafa af liðinu.

Félagið var stofnað árið 1883 og sagði stjórnarformaður þess að þetta væri svartur dagur í sögu félagsins.

„Þetta er afleiðing ýmissa kringumstæðna og svo efnahagskreppunnar sem kom í ofanálag," sagði George Houghton sem keypti félagið árið 2006. Hann efnaðist í fasteignaviðskiptum á sínum tíma og telur þrátt fyrir allt góðar líkur á því að félagið geti fundið sér nýjan eiganda.

Búið er að skipa skiptastjóra sem sér um daglegan rekstur félagsins auk þess að undirbúa sölu þess. Hann er vongóður um að það takist.

„Félagið á sér langa og ríka sögu í enskri knattspyrnu. Það er líka margir kostir við félagið sem gerir það að mögulega góðri fjárfestingu," sagði skiptastjórinn, Dave Clark.

Darlington hefur verið að spila vel á tímabilinu og er í sjöunda sæti ensku D-deildarinnar með 51 stig eftir 30 leiki. Brentford er í efsta sætinu með 59 stig.

Félagið mun nú falla niður í tólfta sæti deildarinnar eftir að stigin tíu verða dregin af því eins og reglur enska knattspyrnusambandsins kveða á um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×