Fótbolti

Smith ætlar að vinna hjá Rangers án samnings

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Walter Smith.
Walter Smith. Nordic Photos / Getty Images

Walter Smith ætlar að halda áfram að vinna hjá Rangers eftir að samningur hans við félagið rennur út í næsta mánuði.

Rangers hefur átt í fjárhagsvandræðum að undanförnu og verið er að vinna að því að finna félaginu nýja eigendur.

Martin Bain, framkvæmdarstjóri Rangers, staðfesti að Smith og tveir aðstoðarmenn hans ætli ekki að krefjast þess að fá nýjan samning til að auðvelda söluferlið.

„Walter, Ally [McCoist] og Kenny [McDowell] hafa allir samþykkt að vinna áfram án samnings við félagið svo það þurfi ekki að skuldbinda sig við þjálfarateymi sem nýir eigendur vilja ef til vill ekki hafa undir sinni stjórn," sagði Bain.

Ef þeir sem kaupa svo Rangers í framtíðinni hafa ekki áhuga á að hafa Smith og hans menn við stjórnvölinn þyrfti að borga þeim bætur ef samningum þeirra yrði sagt upp.

„Við erum svo heppnir að þjálfarateymið okkar eru allir sannir stuðningsmenn Rangers," bætti Bain við.

Rangers hefur ekki fengið nýjan leikmann til félagsins undanfarna átján mánuði ef frá er talinn lánsmaðurinn Jerome Rothen. Liðið er þegar fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu en liðið mætir Sevilla í lokaleik sínum í keppninni á miðvikudaginn.

Smith var áður þjálfari skoska landsliðsins áður en hann tók við Rangers en hann er ekki sagður hafa áhuga á því starfi nú.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×