Innlent

Samfélagið krufið og skilgreint upp á nýtt

Fólk hefur varið degi og nótt í undirbúning þjóðfundarins sem fram fer í Laugardalshöll á morgun. Framkvæmdastjórnin hittist á fundi í hádeginu í gær og fór yfir stöðuna. fréttablaðið/valli
Fólk hefur varið degi og nótt í undirbúning þjóðfundarins sem fram fer í Laugardalshöll á morgun. Framkvæmdastjórnin hittist á fundi í hádeginu í gær og fór yfir stöðuna. fréttablaðið/valli
„Hvaða lífsgildi eiga að vera okkur leiðarljós í þróun samfélagsins?“ Þannig verður spurt á þjóðfundinum í Laugardalshöll á morgun. Í framhaldinu verður rætt um meginstoðir samfélagsins, eins og velferðar- og menntakerfi, atvinnuskapandi umhverfi, regluverk og fleira og með hvaða hætti hægt er að endurmóta þær í samræmi við lífsgildin sem lögð hafa verið til grundvallar.

Mat aðstandenda þjóðfundarins er að í endurreisnarstörfum síðustu mánaða hafi – hugsanlega óhjákvæmilega – verið horft þröngt á aðkallandi verkefni og unnið innan þröngs tímaramma. Þjóðfundurinn gefi hins vegar færi á að lyfta umræðunni upp úr einstökum viðfangsefnum, horfa lengra fram og hlusta á visku þjóðarinnar án þess að hún komi í gegnum síu stjórnmálaflokka eða hagsmunasamtaka. Standa vonir þeirra til að út úr fundinum komi sameiginlegt gildismat og framtíðarsýn, auk ótal hugmynda um endurreisn Íslands.

Undirbúningur hefur staðið þrotlaust síðustu vikur og mánuði og hefur fjöldi fólks komið að verkinu. Allir utan einn vinna í sjálfboðavinnu en verkefnið nýtur stuðnings margra, einkaaðila og opinberra.

Fundinum er ætlað að ná athyglinni af smáatriðum og skammtímalausnum og yfir á framtíðarsýn þjóðarinnar. Horfa á hærra og lengra og búa til raunverulega umræðu um framtíð Íslands – eins og segir í upplýsingum.

Vonir standa til að niðurstöður þjóðfundarins liggi fyrir strax annað kvöld eða snemma á sunnudaginn og getur fólk kynnt sér þær á thjodfundur2009.is.

bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×