Innlent

Engin ánægja með sérstök hvalaskoðunarsvæði

Hvalaskoðunarbáturinn Elding.
Hvalaskoðunarbáturinn Elding. Mynd/Valgarður

Ákvörðun Sjávarútvegsráðherra um að afmarka sérstök svæði fyrir hvalaskoðun vekur hörð viðbrögð á báða bóga, hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum jafnt sem hrefnuveiðimönnum.

Í tilkynningu frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands segir að þar á bæ hafni menn alfarið þeim tillögum sem „hvalveiðimenn og starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar setja fram um "afmörkun svæða til hvalaskoðunar". Tillagan ber þess ríkulega merki að Hafró hefur frá upphafi verið málpípa hvalveiðimanna og hvalveiðistefnu stjórnvalda hverju sinni. Núverandi sjávarútvegsráðherra setti það í hendur Hafró að gera tillögu að afmörkuðu svæði fyrir hvalaskoðun en þar á bæ var ekkert tillit tekið til beiðni Hvalaskoðunarsamtakanna um lágmarks griðland," segir í yfirlýsingunni.

„Ferðaþjónusta á Íslandi er ein af þremur meginstoðum efnahagslífsins og ber að virða sem slíka. Ef það er vilji stjórnvalda, þar á meðal núverandi sjávarútvegsráðherra, að ferðaþjónustan njóti sannmælis sem alvöru atvinnugrein ber ráðherra að hafna þessari tillögu með öllu. Hvalaskoðunarsamtök Íslands krefjast þess að sjávarútvegsráðherra skipi nefnd óháðra vísindamanna sem er fær um að koma með tillögu um fyrirhugaða afmörkun svæða fyrir hvalaskoðun. Taka þarf mið af raunverulegum hagsmunum Íslands og ört vaxandi ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Verði farið að tillögum Hafró má reikna með að hrefnuskoðun við Ísland leggist af innan fárra ára," segir ennfremur.

Hrefnuveiðimenn einnig ósáttir

Félag hrefnuveiðimanna hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu sem er ekki síður neikvæð í garð ákvörðunarinnar. „Félag hrefnuveiðimanna mótmælir harðlega því fyrirkomulagi að úthluta ákveðnum svæðum undir hvalaskoðun og loka þar með algerlega á gömul veiðisvæði hrefnuveiðimanna. Hvalveiðar hafa verið stundaðar við strendur Íslands löngu áður en ákveðið var að hefja hér hvalaskoðun. Hrefnuveiðar og hvalaskoðun hafa farið fram hérlendis undanfarin ár. Ekki verður með neinu móti séð að það hafi á nokkurn hátt haft neikvæð áhrif á hvalaskoðun, hinsvegar hafa jákvæðu áhrifin verið þau að hvalaskoðun hefur aukist ár frá ári. Sú er einnig raunin í Noregi, þar sem hvalaskoðun hefur átt sér stað á hvalveiðisvæðum undanfarin 20 ár."

Hrefnuveiðimenn segjast ennfremur hafa hafa líst sig reiðubúna til samvinnu við hvalaskoðunarfyrirtækin hérlendis svo ekki sé verið að stunda veiðar á sömu slóðum, á sama tíma og hvalaskoðun fer fram. „Slík samvinna hefur ekki hlotið hljómgrunn hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum, þvert á móti hefur ávalt verið leitast eftir því, að þeirra hálfu, að deila um málið í fjölmiðlum," segir ennfremur og því bætt við að tillaga Hafró gangi allt of langt í því að friða ákveðin svæði, meira að segja svæði sem ekki eru nýtt undir hvalaskoðun í dag. Þau ummæli Hvalaskoðunarsamtakanna að Hafró sé málpípa hvalveiðimanna dæmi sig því sjálf.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×