Enski boltinn

Hicks ræðir sölu á Liverpool

Tom Hicks, annar eigenda Liverpool, er í viðræðum við milljarðamæringinn Nasser Al-Kharafi um mögulega yfirtöku Kúvætans á félaginu.

Breska ríkissjónvarpið segir að þeir hafi átt fund í Lundúnum en Al-Kharafi þessi er metinn á litla níu milljarða punda.

Sagt er að Bandaríkjamennirnir Hicks og George Gillett hafi sett um 550 milljón punda verðmiða á Liverpool, en þeir hafa verið nokkuð umdeildir síðan þeir tóku yfir félagið fyrir 218 milljónir punda fyrir tveimur árum síðan.

Sagt er að viðræðurnar við Al-Kharafi hafi byrjað í tengslum við byggingu félagsins á nýjum heimavelli Liverpool á Stanley Park.

Því hefur lengi verið haldið fram að samband þeirra Hicks og Gillett sé frekar slæmt, en samkvæmt BBC eru þeir samstíga í viðleitni sinni til að selja félagið.

Al-Kharafi mun hafa hug á að eignast um helmingshlut í félaginu og að Bandaríkjamennirnir héldu þá 25% hvor, en því hafa heimildamenn í Liverpool neitað.

Gillett og Hicks fengu nýverið sex mánaða frest tili að greiða 350 milljón punda lán til Royal Bank of Scotland og Wachovia bankanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×