Íslenski boltinn

Valur hefur ekki haft samband við Barry Smith

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barry Smith í leik með Val árið 2007.
Barry Smith í leik með Val árið 2007. Mynd/Vilhelm

Barry Smith segist ekki hafa heyrt í Valsmönnum sem eru nú að leita sér að þjálfara eftir að Willum Þór Þórsson hætti hjá félaginu í fyrradag.

Valsmenn eru sagðir enn reyna að fá Guðmund Benediktsson til að taka við starfinu en Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, sagði við Vísi í dag að KR hefði hafnað tilboði Vals í Guðmund.

Næstur á óskalista Vals er sagður vera Barry Smith sem lék með Valsmönnum um árabil. Hann starfar nú sem þjálfari U-19 ára liðs Dundee sem hann lék lengi með í Skotlandi.

„Ég heyrði að Willum væri hættur þar sem ég er enn í sambandi við nokkra leikmenn hjá liðinu," sagði hann í samtali við Vísi í dag. „En ég hef ekkert heyrt í frá félaginu sjálfu."

Barry neitar því þó ekki að það kæmi til greina að koma aftur til Vals nú. „Maður á aldrei að segja aldrei. Ég er hins vegar í góðu starfi hjá Dundee og þyrfti því að skoða mín mál vel."

Hann hefur mikinn áhuga á að leggja fyrir sig þjálfun nú þegar að leikmannaferli hans er lokið og er hann nú að ná sér í þjálfaramenntun. Hann útilokar ekki að koma til Íslands aftur í framtíðinni.

„Mér leið mjög vel á Íslandi og samskipti mín við alla hjá félaginu voru öll til fyrirmyndar. Það er því aldrei að vita hvað gerist."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×