Innlent

Heimilum sem fá fjárhagsaðstoð fjölgar á ný

Heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð sveitarfélaga fjölgar á nýjan leik. Árið 2008 fengu 5029 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 749, eða 17,5%, frá árinu áður. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands en stofnunin hefur allt frá árinu 1987 leitað slíkra upplýsinga frá sveitarfélögum.

Árið 2003 þáðu 6312 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga en til ársins 2007 fækkaði þeim jafnt og þétt eða sem nam 32% á öllu tímabilinu. Fjölmennasti hópurinn árið 2008 sem þáði fjárhagsaðstoð sveitarfélaga var sem fyrr einstæðir barnlausir karlar, eða 39% heimila, og einstæðar konur með börn, 32,8% heimila.

Á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2008 bjuggu 9097 einstaklingar eða 2,8% þjóðarinnar, þar af voru 3587 börn 17 ára og yngri eða 4,5% barna á þeim aldri. Árið 2007 bjuggu 7997 einstaklingar eða 2,6% þjóðarinnar á slíkum heimilum, þar af voru 3284 börn eða 4,1% barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×