Fótbolti

Beckham: Það er enn langur vegur framundan

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Nordic photos/AFP

Stórstjarnan David Beckham hjá LA Galaxy var valinn maður leiksins þegar Englendingar unnu 3-0 sigur gegn Hvít-Rússum í undankeppni HM 2010 í gær þrátt fyrir að koma inná sem varamaður þegar um hálftími var eftir af leiknum.

Landsliðsþjálfarinn Fabio Capello hjá Englandi lét hafa eftir sér í viðtali við The Sun að það hafi komið sér virkilega mikið á óvart að Beckham hafi verið valinn maður leiksins og líkti því við að Bandaríkjaforsetinn Barack Obama fengi Nóbelsverðlaunin eftir aðeins átta mánuði við stjórnvölin.

Beckham sjálfur segir að hann, líkt og aðrir leikmenn enska landsliðsins, þurfi að leggja sig allan fram til þess að komast í landsliðshópinn fyrir lokakeppnina.

„Er ég á leið á lokakeppnina? Ég veit það ekki því það er enn langur vegur framundan. Allir leikmenn landsliðsins þurfa að sanna sig fyrir landsliðsþjálfaranum á öllum æfingum og í öllum leikjum fram að lokakeppninni.

Ef ég verð í leikmannahópnum á lokakeppninni þá verður það frábært en ef ég verð ekki í hópnum er ég sannfærður um að hópurinn sem fer sé það góður að hann geti náð góðum árangri," sagði Beckham í leikslok í gær.

Búist er við því að formlega verði tilkynnt á næstunni um að Beckham fari aftur á láni til AC Milan, líkt og hann gerði á síðasta tímabili, en Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, hefur þegar sagt að allt sé klappað og klárt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×