Innlent

Fá hvorki jólagjöf né veitingahúsaferð

Enginn pakki í ár
„Hafi slíkt tíðkast áður ber að láta af þeim sið,“ segir um jólagjafir til starfsmanna og boð í jólahlaðborð á veitingastöðum í bréfi til yfirmanna hjá Reykjavíkurborg.
Fréttablaðið/Anton
Enginn pakki í ár „Hafi slíkt tíðkast áður ber að láta af þeim sið,“ segir um jólagjafir til starfsmanna og boð í jólahlaðborð á veitingastöðum í bréfi til yfirmanna hjá Reykjavíkurborg. Fréttablaðið/Anton

„Að gefnu tilefni skal á það minnt að stjórnendum vinnustaða Reykjavíkurborgar er óheimilt að verja fjármunum vinnustaða til að bjóða starfsmönnum á jólahlaðborð veitingastaða eða til að kaupa jólagjafir. Hafi slíkt tíðkast áður, ber að láta af þeim sið,“ segir í bréfi til sviðsstjóra og starfsmannastjóra hjá Reykjavíkurborg.

Í bréfinu, sem Hallur Páll Jónsson mannauðsstjóri sendi fyrr í þessum mánuði, kemur fram að starfsstaðir Reykjavíkurborgar hafi haft ýmsan hátt á varðandi skipulag atburða með starfsmönnum í tilefni aðventunnar.

„Á öllum vinnustöðum gera menn sér dagamun og þannig verður það án efa að þessu sinni, enda mikilvægt að efla starfsandann,“ ítrekar mannauðsstjórinn um leið og hann undirstrikar að nauðsynlegt sé að útgjöld í tilefni aðventunnar verði í miklu hófi. „Hér er ekki aðeins verið að vísa til sparnaðar og ráðdeildar eða að vel sé farið með skattfé borgarinnar, heldur einnig bent á mikilvægi þess að sömu meginviðmið gildi um starfsmenn í þessum efnum, óháð vinnustað og fagsviði.“

Í svari til Fréttablaðsins segir Hallur að borgin hafi ekki gefið út sérstakar leiðbeiningar fyrir stjórnendur. „Hins vegar hefur þeim tilmælum verið beint til stjórnenda að gæta þess að útgjöld verði í hófi,“ segir mannauðsstjórinn. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×