Enski boltinn

Milan klúðraði sölunni

NordicPhotos/GettyImages

Framkvæmdastjóri Manchester City segir að það sé AC Milan að kenna að kaup City á Brasilíumanninum Kaka náðu ekki fram að ganga í gær - Ítalirnir hafi klúðrað málinu.

Forráðamenn City þurftu að snúa aftur til Englands með skottið á milli lappanna í gærkvöld eftir að ljóst varð að Kaka færi hvergi.

Þeir eru eðlilega skúffaðir eftir að hafa ekki náð að keyra í gegn langstærstu viðskipti knattspyrnusögunnar.

"Leikmaðurinn var augljóslega til sölu. Við vorum komnir langt með að landa málinu fyrir nokkrum vikum, en Milan klúðraði þessu," sagði Garry Cook, framkvæmdastjóri City.

Hann segir að Milan-menn hafi bognað undan þrýstingi eftir hávær mótmæli stuðningsmanna Milan síðustu daga.

"Við vorum búnir að fara í gegn um þriggja eða fjögurra þrepa viðræður við Milan þar sem félagið gaf það hreint út að leikmaðurinn væri til sölu. Við sögðum á sama hátt að við vildum fá hann, en þegar kom að næsta skrefi gátu þeir ekki svarað og ég held að pólítískur þrýstingur hafi orðið til þess að þeir skiptu um skoðun," sagði Cook

Hann viðurkennir að City-menn hafi aldrei náð svo langt að ræða við leikmanninn sjálfan.

"Við hittum Kaka aldrei. Við hittum bara faðir hans en við töluðum aldrei beint við Kaka, svo málið náði aldrei það langt að ræða um kjör við leikmanninn," sagði Cook

Hann bætti því við að faðir Kaka virtist hafa meiri áhuga á að ræða fjárhagslegan hluta viðskiptanna en nokkuð annað, þó forráðamenn City hefðu viljað ræða "mannlega hlutann" áður en annað yrði tekið fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×