Enski boltinn

Delap vill Wright-Phillips ekki í bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Delap fær hér að líta umrætt rautt spjald.
Delap fær hér að líta umrætt rautt spjald. Nordic Photos / AFP
Rory Delap, leikmaður Stoke, segir að Shaun Wright-Phillips eigi ekki skilið að verða dæmdur í bann eins og allt útlit er fyrir að verði gert.

Delap tæklaði Wright-Phillips sem leikur með Manchester City í leik liðanna um þarsíðustu helgi. Delap fékk að líta rauða spjaldið fyrir en sjónvarpsupptökur sýndu að Wright-Phillips danglaði löppinni í Delap strax í kjölfarið.

Martin Atkinson, dómari leiksins, sá ekki atvikið en sagði svo eftir leik að hefði hann gert það hefði hann rekið Wright-Phillips einnig út af.

„Það væri nokkuð harkalegt að dæma hann einnig í bann," sagði Delap í samtali við enska fjölmiðla. „Miðað við hvað ég gerði eru þetta nokkuð eðlileg viðbrögð hjá honum."

Hann segist skilja vel að hann hafi fengið rautt fyrir brotið.

„Ég ætlaði mér ekki að brjóta á honum. Ég fór í boltann þegar ég hefði ekki átt að gera það. Þetta leit verr út í sjónvarpinu en mér fannst þegar þetta gerðist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×